145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra vilji ekki ræða svikin á kosningaloforði Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar. Það er eðlilegt að núna mánuð eftir mánuð, missiri eftir missiri, hefur hann ekki sinnt þinglegri skyldu sinni að taka þá umræðu sem margítrekað hefur verið beðið um, mánuðum saman, að fari fram hér.

Það er pínlegt, virðulegur forseti, að sjá dagskrá dagsins þar sem enga sérstaka umræðu er að finna. Fyrir liggur ósk frá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um að ræða helsta kosningamál Framsóknarflokksins við formann flokksins. Sú ósk hefur legið fyrir í hálft annað ár þegar með er tekin óskin um að skýrsla forsætisráðherra um verðtryggingu verði rædd hér. Enn hefur ekki verið orðið við henni og engin umræða er á dagskrá dagsins í dag.

Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og skortur á málum frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar er sömuleiðis átakanlegt, því að í dag á ekki að ræða hér annað en innleiðingu (Forseti hringir.) á einhverjum gerðum frá Evrópusambandinu. Það eru engin stjórnarmálefni, ekkert frumkvæðismál (Forseti hringir.) frá ríkisstjórninni á dagskrá þingsins.