145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er mjög hugsi yfir því að í janúar á síðasta þingi hafði þingmaður Samfylkingarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, óskað eftir sérstakri umræðu við forsætisráðherra um verðtryggingu. Ekki var orðið við þeirri beiðni allt síðasta þing, þ.e. frá og með janúar. Núna eru menn aftur byrjaðir að hlaupa undan þeirri umræðu. Ég verð líka að spyrja virðulegan forseta: Er þetta í lagi? Leyfa þingsköp það að menn svari ekki beiðnum um slíkar umræður? Þetta er það sem við þingmenn höfum, þ.e. óundirbúnar fyrirspurnir, sérstakar umræður, við höfum líka skriflegar fyrirspurnir. Ráðherrar verða að gjöra svo vel að svara slíkum beiðnum og fyrirspurnum.

Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að forseti snúi sér strax að því (Forseti hringir.) að fara fram á það við forsætisráðherra að hann verði við þessari beiðni strax, ef ekki í þessari viku þá í þeirri næstu, (Forseti hringir.) ellegar verði hann víttur með einhverjum hætti. Menn þurfa að gera eitthvað alvarlegt í þessu. Þetta er ekki hægt (Forseti hringir.) lengur.