145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er nú hægt að rifja það upp að þetta virðist vera svolítið einskorðað við hæstv. forsætisráðherra. Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir beið hér líka í marga mánuði eftir því að fá samtal við hann um málefni sem þó eru honum kær, málefni sem hann tók til sín inn í sitt ráðuneyti. Þegar menn ákveða að gera slíkt þá þurfa þeir að svara fyrir það, það er bara þannig.

Það er óskaplega sérstakt að ráðherra skuli leyfa sér svona framkomu gagnvart þinginu og maður skilur eiginlega ekki af hverju. Hvers vegna vill forsætisráðherra ekki ræða við þingmenn um málefni sem eru honum kær? Ég ætla að gera ráð fyrir því að bæði húsaverndun og verðtrygging séu honum kær, hann lagði það fram í kosningabaráttunni að það væru tvö af hans helstu málum. Eftir hvoru tveggja virðist þurfa að bíða alveg óskaplega lengi.

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá beiðni að farið verði yfir það, og það verði rætt, hvers vegna ráðherrann kemur hér ekki til svara. Það er ekki nóg að segja, (Forseti hringir.) eins og hæstv. forseti hefur sagt, að skriflegum beiðnum hafi fjölgað (Forseti hringir.) svo gríðarlega að ráðuneytið sé að kikna. Ef samtal á sér ekki stað hér þá þarf það að fara fram skriflega.