145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Á laugardaginn bárust okkur þær hræðilegu fréttir að bandarískt herlið á vegum Atlantshafsbandalagsins hefði gert loftárás á spítala hjálparsamtakanna Læknar án landamæra í Kunduz í Afganistan með þeim afleiðingum samkvæmt síðustu fréttum að 23 létu lífið, 10 sjúklingar og 13 starfsmenn.

Fréttir af loftárásum og stríðsátökum eru alltaf hræðilegar. Við sem höfum búið við frið svo lengi sem flest okkar muna eigum erfitt með að ímynda okkur líf í skugga átaka og þurfum jafnvel að setja okkur í sérstakar stellingar til að geta sett okkur í spor þeirra sem þurfa að lifa við þvílíkan hrylling — ef okkur tekst það á annað borð.

Við vitum öll að starfsemi hjálparstofnana og félagasamtaka á borð við Læknar án landamæra er gjarnan eina aðstoðin og eina heilbrigðisþjónustan sem almenningi býðst á stríðshrjáðum svæðum. Þess vegna er þeim mun mikilvægara að tekið sé fullt tillit til friðhelgi af slíkri starfsemi af stríðandi aðilum.

Sprengjurnar sem rigndi á spítalann í Kunduz verða ekki sogaðar aftur upp í flugvélarnar sem vörpuðu þeim. Þeir sem létu lífið í árásinni verða ekki lífgaðir við. Það eina sem hægt er að gera er að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Ísland er herlaust land, en við erum meðlimir í NATO og berum þannig ábyrgð. Ég skora á íslensk stjórnvöld og fulltrúa Alþingis á þingi NATO að vekja athygli á þessu, kalla eftir skýringum, mótmæla og koma þeim skilaboðum skýrt á framfæri að svona lagað sé einfaldlega ekki í boði. Við frábiðjum okkur að þurfa að frétta af fleiri slíkum atburðum á okkar ábyrgð.


Efnisorð er vísa í ræðuna