145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Í gær slitnaði upp úr samningum við lögregluna, sjúkraliða og SFR. Í gær eða fyrradag slitnaði einnig upp úr samningaviðræðum um svokallað SALEK sem er það að á Íslandi verði teknar upp kjarasamningaviðræður sem fara að hætti þess sem gerist í löndunum í kringum okkur.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að hér verði samningaviðræður eins og þær eru í löndunum í kringum okkur vegna þess að það er ekkert sambærilegt hér við þau lönd. Velferðarkerfið hér er ekki sambærilegt við þau lönd. Ójöfnuður eykst nú með degi hverjum og áður en hægt verður að kenna launafólki um óveðursský sem við sjáum öll í efnahagsmálum þjóðarinnar verða þeir sem stjórna fyrirtækjunum að taka til heima hjá sér. Þeir geta ekki sífellt og endalaust heimtað að launþegar fái 2,8% en þeir sjálfir séu á himinháum launum og geri ekki það sem til þarf.

Vandamálið hér er að laun í landinu eru of lág. Það hefur náðst einhver leiðrétting um það, en þeir þrír hópar sem ég taldi upp í byrjun hafa ekki fengið hana. Nú á að hræða fólk með verðbólgudraugnum og að það sé allt launafólki að kenna.

Virðulegi forseti. Ég mótmæli þessu. Vandamálið hér er lág laun. Þau þarf að leiðrétta og þá getum við haldið áfram(Forseti hringir.) og tekið upp aðrar aðferðir við kjarasamninga en við höfum í dag.


Efnisorð er vísa í ræðuna