145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 143/2015 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

187. mál
[15:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 143/2015, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn þrjár reglugerðir um ökutæki á tveimur eða þremur hjólum og fjórhjólum sem nánar er tilgreint í tillögunni sjálfri.

Markmiðið með reglugerðunum er að styrkja regluverk um viðkomandi gerðir ökutækja auk þess að efla samræmingu í gerðarviðurkenningum bifhjóla. Settar eru fram nánari tæknilegar kröfur og aðferðir við prófun ökutækja sem hér um ræðir, framleiðslu þeirra og markaðseftirlit með þeim. Meginbreytingin felst í því að framleiðendum gefst nú sjálfum færi á að sjá um vottun og útfyllingu skjala. Á móti kemur að verði vart við misferli verði viðurlög við því. Af þeim sökum er ríkjunum gert að setja í eigin löggjöf viðurlög við slíkum brotum. Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar hérlendis og er gert ráð fyrir að hæstv. innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingar á umferðarlögum, nr. 50/1987, á yfirstandandi þingi.

Ekki er gert ráð fyrir að innleiðing reglugerðarinnar hafi mikil áhrif hérlendis enda taka þær til ökutækja sem ekki eru framleidd hér. Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara og því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.