145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 117/2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

189. mál
[15:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 117/2015, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið sem nánar er tilgreint í tillögunni sjálfri. Tilskipunin breytir meðal annars eldri skilgreiningu á umhverfismati og þeim þáttum sem ber að horfa til um mat á umhverfisáhrifum. Tilskipunin hefur það að markmiði að einfalda stjórnsýslu og auðvelda mat án þess að draga úr réttarvernd umhverfisins sem þegar er fyrir hendi. Þá er henni ætlað að styrkja ákvarðanatöku og umhverfisvernd og einfalda regluverk.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hérlendis og er gert ráð fyrir því að hæstv. umhverfisráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, á yfirstandandi þingi.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingu hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.