145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif stöðugleikaskilyrða.

[10:44]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er svolítið undarlegt að fylgjast með umræðu um þessi mál síðustu daga og vikur þar sem gefið er í skyn, og mér fannst hv. þingmaður reyna að gera það hér áðan, að það komi mönnum algjörlega á óvart að til hafi verið tvær leiðir í þessu máli, annars vegar skatturinn, stöðugleikaskatturinn svokallaði, og hins vegar stöðugleikaframlagið. Daginn sem þessi áform voru kynnt voru báðar þessar leiðir kynntar til sögunnar og hafa legið fyrir allan tímann. Þannig að það að gera sér það upp að þetta komi mönnum algjörlega á óvart skýtur mjög skökku við, virðulegur forseti, svo ekki sé meira sagt.

Aðalatriði í þessu máli öllu er að leiðirnar báðar, hvor þeirra sem verður farin, eru til þess hannaðar að leysa vandann og til þess hannaðar að takast á við jafn stórt vandamál og þetta er, nema hvað stöðugleikaframlagsleiðin lagar sig reyndar að stærð vandans. Jafnvel þótt vandinn reyndist enn stærri en gert var ráð fyrir mundi stöðugleikaframlagsleiðin duga til þess að leysa hann.