145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

fjárframlög til rannsókna í ferðaþjónustu.

[10:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka svarið og ég fagna því að settir verði meiri fjármunir í þetta. Ég get tekið fram varðandi þetta svo ég haldi áfram, mér finnst svo gaman að glugga í þessi gögn, að það fór t.d. hátt í milljarður í rannsóknir í þágu landbúnaðar á árinu 2013. Ég er ekki að segja að þar sé endilega verið að setja of mikið fé. En við munum þá væntanlega sjá þess stað í fjárlagagerðinni að meiri fjármunir komi inn til rannsókna í ferðaþjónustu.

Mér finnst líka mikilvægt að benda á að þetta umhverfi, rannsóknarumhverfi, er gríðarlega flókið og það ætti að vera forgangsverkefni að koma þessu á færri hendur. Þetta er eins og ég segi og eins og kemur í ljós í þessu svari eiginlega út um allt og undir mismunandi ráðherrum. Þar af leiðandi er mjög gott hvað margir ráðherrar koma að þessari vinnu. Ég vil hvetja ráðherrann til dáða. Ég held að við höfum öll skilning á þessu en það þarf algjörlega að spýta í lófana hvað þetta varðar og ég ítreka þá ósk og kröfu um að rannsóknir í þágu ferðaþjónustunnar verði efldar til muna.