145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

fjárframlög til rannsókna í ferðaþjónustu.

[10:51]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áskorunina og hvatninguna og óska eftir liðsinni hv. þingmanns og annarra þingmanna við að gera bragarbót á þessu, ekki síst gagnvart þeim fjárveitingum sem lagðar eru til. Þetta snýst nefnilega líka um það, eins og við höfum kannski séð annars staðar í ferðaþjónustunni, t.d. í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, að nýta fjármunina sem best, að við séum að setja upp þannig verklag að við vitum hvaða verkefni liggur mest á að fara í, forgangsröðum fjármunum og kröftum í þau verkefni og látum keðjuna virka sem eina heild. Í framkvæmdasjóðnum höfum við séð að keðjan rofnar, það vantar hlekki þannig að á allra næstu dögum munum við setja allan kraft í að gera sem mest á stuttum tíma svo við getum vonandi lagt fram tillögur fyrir þingið við meðferð fjárlagafrumvarpsins og það er svo þingsins að ákveða hvort fallist verður á þær.