145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

[10:52]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að fá að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu hans gagnvart frumvarpi sem ég var að leggja fram fyrr í haust, um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Frumvarpið, sem hefur verið lagt fram í ýmsum myndum undanfarin 30 ár, af og til, á sér fyrirmynd í norskum, dönskum og sænskum lögum þar sem verið er að binda skyldu ráðherra til þess að segja satt og rétt frá og veita upplýsingar til Alþingis.

Erfitt er fyrir Alþingi og fyrir þing almennt að taka upplýstar ákvarðanir um það sem er að gerast á þingi, eða í samfélaginu yfir höfuð, ef ekki er hægt að treysta því að ráðherra veiti rétt svör, sönn svör, eða gefi þær upplýsingar sem við þurfum til að geta náð niðurstöðu í ákveðnum málum.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er afstaða hans til þessarar upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra? Hvernig líst honum á þetta? Er þetta eitthvað sem hann vill fá í íslensk lög, að það væri hluti af ráðherraábyrgð ef í ljós kemur að ráðherra segir ekki satt og rétt frá?