145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

fjárhagsvandi tónlistarskólanna.

[10:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Tónlistarskólarnir í Reykjavík eru í miklum vanda. Í vor var gengið frá samkomulagi á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins sem fólst meðal annars í því að við hér á Alþingi samþykktum að greiddar yrðu 30 milljónir úr jöfnunarsjóði til að hjálpa til við að leysa þennan vanda. Ríkið ætlaði að koma með 60 milljónir og Reykjavíkurborg ætlaði að leggja til 90 milljónir.

Nú heyrist það að ríkið ætli ekki að standa við þennan samning um að greiða þær 60 milljónir. Þegar hefur kennurum við tónlistarskóla í Reykjavík verið sagt upp. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra mjög einfaldrar spurningar, já eða nei, vegna þess að ég veit um lögin frá 1980, ég veit um samkomulag frá 2011, en spurningin er þessi: Hyggst ráðherrann leggja sitt af mörkum til þess að vandi tónlistarskólanna í Reykjavík, og þá sérstaklega nemendanna við þessa skóla, verði leystur samkvæmt því samkomulagi sem undirritað var í vor eða gengið var frá í vor? Bara já eða nei, ég þarf engan langan fyrirlestur, virðulegi forseti.

Í annan stað hefur staðið yfir vinna lengi um það hvernig á að koma þessum málum fyrir í framtíðinni. Nú skilst mér að í vor hafi sú vinna verið sett í uppnám og einhverjar nýjar hugmyndir á reiki. Mig langar til að spyrja ráðherrann hvort hann hyggist ekki gera okkur í þinginu grein fyrir þeim hugmyndum áður en þær verða bara lagðar fram í fjárlögum eins og ráðherranum er títt vegna þess að þetta (Forseti hringir.) skiptir okkur öll miklu máli.