145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

afnám verðtryggingar o.fl.

[11:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þann 1. janúar sl. hafði hæstv. forsætisráðherra boðað á vef ráðuneytisins fyrstu skrefin í afnámi verðtryggingar. Við höfum enn ekki orðið vör við nein slík skref. Ég óskaði í febrúar eftir sérstakri umræðu við hæstv. forsætisráðherra um afnám verðtryggingar. Af henni hefur ekki enn orðið. Í dag er enn ein sérstök umræðan um allt annað mál þar sem mín beiðni hefur verið virt að vettugi.

Ég sætti mig ekki við þetta. Ég ætlast til þess að umræða um afnám verðtryggingar við hæstv. forsætisráðherra fari fram í þessum sal í næstu viku. Ég er búin að bíða í átta mánuði þar sem forsætisráðherra hefur komist upp með að hunsa beiðni mína um að fá að tala við hann — um hvað? Annað af tveimur helstu kosningaloforðum hans fyrir síðustu kosningar.