145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

afnám verðtryggingar o.fl.

[11:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er skiljanlegt að hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vilji ekki ræða hér í þinginu af hverju hann hefur svikið kosningaloforðið sem hann gaf um afnám verðtryggingar. Það er liðið meira en hálft kjörtímabilið og algerlega útséð um það að Framsóknarflokkurinn ætli að efna þetta stóra kosningaloforð og ætlaði aldrei að efna það. En þingið getur auðvitað ekki látið bjóða þjóðkjörnum fulltrúum upp á það að hægt sé að neita umræðu, sérstakri umræðu, mánuðum og missirum saman og skipaðir ráðherrar þurfi ekki að standa hér ábyrgir gerða sinna og svara fyrir það með hvaða hætti þeir hafa rækt eða ekki rækt kosningaloforð.

Ég tek eindregið undir með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að þessi umræða verður að fara fram í næstu viku. Það er löngu orðið þinginu til vansa að forsætisráðherra geti valið það hvaða umræður hann taki og hverjar ekki. Það á ekki að vera hans val.