145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

afnám verðtryggingar o.fl.

[11:08]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Það rifjast upp fyrir mér þegar ég bað um sérstaka umræðu við hæstv. forsætisráðherra á sumarþingi 2013. Ég beið það þing, lagði aftur fram beiðni að hausti og beið, held ég, fram yfir áramót. Þá fékk ég loksins þá sérstöku umræðu. Þetta er mjög bagalegt því að það sem gerist er að maður fer í rauninni að beina sérstökum umræðum til annarra ráðherra vegna þess að maður getur bara haft eina beiðni um sérstaka umræðu liggjandi inni í einu. Ef maður bíður í marga mánuði þá fær maður ekki sérstaka umræðu við neinn annan ráðherra á meðan. Þetta er eiginlega alveg ófært.

Ég hef reyndar beðið mjög lengi eftir umræðunni sem ég er að fara að taka núna á eftir en ég held að það sé ekki endilega við hæstv. menntamálaráðherra að sakast í þeim efnum. Ég hef ekki staðið hann að öðru en að vera tilbúinn að mæta í sérstaka umræðu. Það er mjög mikilvægt að ráðherrar sinni þessu.