145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

menning á landsbyggðinni.

[11:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Hvað varðar stefnu í menningarmálum á landsbyggðinni þá var ákveðið, eins og hv. þingmaður þekkir vel, að gera breytingar þannig að gerður hefur verið samningur um sóknaráætlanir landshluta sem gildir til ársloka 2019 þar sem tengdir eru saman mismunandi þættir eða stuðningsáætlanir sem uppi hafa verið til þess að styðja við landsbyggðina og menningarmálin fléttuð þar inn í. Þessir samningar voru undirritaðir í febrúar síðastliðinn og tóku þegar gildi. Markmið þeirra er að ráðstöfun þeirra fjármuna sem er varið til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnu-, byggða- og menningarmála byggi á svæðisbundnum áherslum og markmiðum sem koma fram í sóknaráætlun landshluta. Með öðrum orðum, við erum að færa frá ráðuneytinu og miðstjórnarvaldinu til heimamanna ákvörðunarréttinn um hvernig þessum fjármunum, bæði hvað varðar menningarmálin og annað, verður ráðstafað. Ég held að það sé skynsamleg nálgun.

Þá er auðvitað eftir það sem hv. þingmaður nefnir réttilega, upphæðin. Það er mál sem ég er alveg tilbúinn til þess að ræða og ég vísa þá sérstaklega til menningarsamninganna við Akureyri sem eru að renna út og þarf að endurnýja núna. Það þarf auðvitað að skoða þetta. Ég er sammála hv. þingmanni að sá þáttur málsins sem snýr að verðbótunum veldur hér vandræðum og veldur reyndar mjög víða vandræðum. Ég get tekið sem dæmi óperuna, fjárframlagið sem hefur runnið til hennar hefur ekki verið verðbætt í gegnum tíðina. Menn hafa staðið frammi fyrir verulegum vanda þar sem við höfum reynt að leysa á undanförnum árum í gegnum fjárlög en eigum heilmikið eftir í.

Virðulegi forseti. Ég vil segja það um menningarstofnanir úti á landsbyggðinni að sérstaklega var tekið til varðandi skáldahúsin. Það kom að nokkru fram hjá hv. þingmanni að núna eru í gildi samningar við Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri, Snorrastofu í Reykholti og Laxnesssafn á Gljúfrasteini. Þórbergssetur á Hala í Austur-Skaftafellssýslu hefur líka fengið samning og það er vilji stjórnvalda til þess að styrkja það svæði þar í gegn. Allt eru þetta stofnanir úti á landi, þótt menn geti kannski rifist um staðsetninguna í Mosfellsbæ, hversu mikið úti á landi hún telst vera. En þetta er staðan.

Ég vildi gjarnan geta gert meira af þessu. Ég held að það sé mjög jákvætt fyrir samfélögin og það skipti máli að lyfta skáldunum okkar upp með slíku húsnæði. Akureyrarbær hefur haft glæsilega forgöngu hvað varðar þau skáld sem þar hafa búið og starfað og er til fyrirmyndar, reyndar er margt sem bæjaryfirvöld þar hafa gert á sviði menningarmála mjög eftirtektarvert.

Hvað varðar fjárframlög til einstakra stofnana ríkisins á sviði menningarmála, ég tek þá dæmi Sinfóníuhljómsveitina eða Þjóðleikhúsið, er alveg rétt að á undanförnum tveimur árum hefur verið reynt að beina meiri fjármunum til þessara stofnana af því að þær voru komnar í veruleg vandkvæði. Vil ég sérstaklega nefna Þjóðleikhúsið sem var komið á mjög erfiðan stað vegna endurnýjunar á búnaði og annars. Á þessum tveimur stofnunum, bæði Þjóðleikhúsinu og Sinfóníuhljómsveitinni, hvílir síðan sú skylda að sinna menningarstarfsemi á landsbyggðinni með því að fara með sýningar og í tilfelli Sinfóníuhljómsveitarinnar tónleika út á land og taka þátt í menningarstarfi þjóðarinnar allrar, ekki bara bjóða upp á viðburði á Reykjavíkursvæðinu. Þetta skiptir verulega miklu máli.

Ég vil líka vekja athygli þingmannsins á því að við bryddum upp á nýjung í þessu fjárlagafrumvarpi sem snýr að barnamenningu. Ef fjárlagafrumvarpið verður samþykkt eru þar fjármunir sem er ætlað til að styrkja barnamenningu, þá er sérstaklega horft til landsbyggðarinnar til að tryggja það að krakkar úti á landi fái, í gegnum skólastarf sitt, meira aðgengi að menningu en nú er. Ég hafði metnað til þess í síðustu fjárlögum að þetta kæmi inn. Það féll út alveg á lokametrunum, en er inni núna og vonandi heldur það sér þar.

Virðulegi forseti. Við munum sjá á næstu missirum reynsluna af þessu nýja fyrirkomulagi sem var ákveðið í febrúar á þessu ári. Ég get bara sagt að það eru að sjálfsögðu rök fyrir því að bætt verði við fjármunum til þessarar starfsemi. Eins og hv. þingmaður rakti var á undanförnum árum í kjölfar hrunsins skorið verulega niður almennt til menningarmála. Reynt var að verja ákveðnar grunnstofnanir og vil ég hrósa þáverandi ráðherra hvað þá áherslu varðar, en þær voru samt sem áður komnar á mjög erfiðan stað, ef ég má nota slíkt orðalag, virðulegur forseti, fjárhagsstaða þeirra var orðin erfið. En það er eitt af þeim verkefnum sem eru fram undan hjá okkur á næstu árum að bæta til baka aftur og helst bæta við vegna þess að við erum öll sammála um mikilvægi þess að það sé öflugt (Forseti hringir.) og blómlegt menningarlíf alls staðar í landinu, ekki bara hér á Reykjavíkursvæðinu heldur úti um land allt.