145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

menning á landsbyggðinni.

[11:37]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja að þakka málshefjanda fyrir að taka upp þetta mál enda þykir mér það mjög brýnt, ekki síst eftir að hafa ferðast um Norðvesturland undanfarna kjördæmaviku.

Menning á landsbyggðinni snýst náttúrlega ekki bara um það að hafa menningu á landsbyggðinni heldur að hafa menningu á Íslandi í heild. Við þurfum að hætta að líta á þetta sem einhverja bitlinga til landshluta. Við þurfum að sjá til þess að allir geti sótt menningu á þeim stöðum sem þeir búa og ekki síst til þess að fólk nenni að búa þar, þá þarf eitthvað að vera í gangi.

Víðs vegar um land er vegakerfið í molum. Grundvöllurinn fyrir því að hægt sé að ferðast á milli staða eru vegir fyrir utan það að þegar við erum að byggja upp land sem ætlar að taka inn mikið af tekjum sínum í gegnum ferðaþjónustu þá má ekki gleyma því að fólk vill sjá menningu. Fólk vill fá að vita hvað er að gerast og hvað fólkið í heimabyggð vill gera á daginn, á kvöldin og um helgar. Það er mjög mikilvægt að leggja meira í þessi mál og ekki síst að horfa á þau í víðara samhengi. Það þarf að styrkja innviðina, það þarf að bæta vegina til að fólk geti komist á milli staða. Að það sé liggur við ófært á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar sem eiga nú að vera í sömu sýslu eða sama landshluta er ekki hægt. Fólk á að geta sótt menningu í nærumhverfi sínu og það eiga bara að vera sjálfsögð réttindi Íslendinga.