145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

menning á landsbyggðinni.

[11:41]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Menning, saga og listir, er órjúfanlegur hluti af tilveru okkar og það sem við byggjum sjálfsmynd okkar á. Þess vegna er mjög mikilvægt að allir landsmenn hafi jafna aðstöðu og jafnan rétt til að njóta menningar.

Ég segi saga hér því að sagan er okkur mjög mikilvæg vegna þess að til hennar leitum við þegar við þurfum að fá vegvísi fram á við. Sem betur fer eru landsmenn afskaplega duglegir að búa til alls konar menningu. Á undanförnum árum hafa sprottið upp ýmis söfn um landið vítt og breitt. Ég vil nefna Flugsafn Íslands á Akureyri sem er mjög merkilegt. Það væri fyllilega verðugt verkefni að leggja fjármagn í það. Ég vil nefna Síldarminjasafnið á Siglufirði sem er mjög merkilegt safn og vel sótt og er að vísu á fjárlögum. Við erum líka að tala um skáldasöfnin okkar fjögur sem eru öll á fjárlögum. Mig langar að nefna eitt höfuðból sem er Hraun í Öxnadal og hefur verið nefnt hér fyrr, sem skiptir miklu máli að við stöndum vel að og höldum á lofti. Ég mundi gjarnan vilja sjá það gerast að Hraun í Öxnadal kæmist á fjárlög. Hraun í Öxnadal er fæðingarstaður listaskáldsins góða, Jónasar Hallgrímssonar. Það væri til mikilla framfara fyrir okkur að leggja þeim stað lið og byggja hann upp sem verðuga minningu um Jónas Hallgrímsson.