145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

menning á landsbyggðinni.

[11:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda. Þetta eru afskaplega ánægjulegar umræður sem hér hafa átt sér stað. Það vekur þó athygli mína að það tekur ekki einn einasti karl, fyrir utan ráðherra, þátt í umræðunum. Það segir kannski svolítið um málaflokkinn. Þetta er gjarnan mýkri málaflokkur sem konur bera á höndum sér umfram karlana, virðist vera, alla vega á þingi í þessari umræðu, þótt ekki sé meira sagt.

Ég tek undir að það er blómlegt menningarlíf mjög víða um landsbyggðina. Þetta er partur af innviðum hvers samfélags. Það eru allt of litlir peningar í sóknaráætlunum, af því að hæstv. ráðherra vísaði til sóknaráætlana. Það hefur löngu komið fram hjá öllum sveitarstjórnarmönnum alls staðar á landinu að fjármagnið dugar ekki til miðað við þau verkefni sem þeim er ætlað að sinna. Þetta er skattfé sem við erum hér að leggja í. Ég sé ekki eftir því í stofnanir í höfuðborginni en ég vildi gjarnan sjá meira lagt til landsbyggðarinnar og sérstaklega þar sem Akureyri er höfuðstaður Norðurlands, og líklega rúmlega það, hann tekur stórt svæði bæði austur, vestur og víðar, sinnir mikilli menningarstarfsemi og hefur gengið fram með góðu fordæmi sem er sameining þriggja menningarstofnana. Það ber að hafa það í huga sem Háskólinn á Akureyri gerði, hann dró saman, hann lagaði reksturinn sinn. Það eru menningarstofnanirnar á Akureyri að gera. Það á að verðlauna þær fyrir það en ekki refsa með því að skera niður eða halda framlögunum óbreyttum á milli ára.

Menningartengd ferðaþjónusta er mjög vaxandi þáttur. Við erum að tala um að dreifa ferðamönnum um allt land. Þess vegna er mjög mikilvægt að við sinnum allri landsbyggðinni. Það er líka mikilvægt að slaka ekki á kröfum þegar kemur að reiknireglum um skiptingu fjármagns, m.a. með tilliti til fjárlaga eins og hér hefur verið rakið varðandi Austurland. Ég held að hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra verði að koma fram (Forseti hringir.) og leggja til einhverjar breytingar (Forseti hringir.) á því framlagi sem stendur Hofi og öðrum menningarstofnunum á Akureyri til boða óbreytt.