145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

menning á landsbyggðinni.

[11:51]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingkonum sem hér hafa tekið þátt. Ég verð að segja og taka undir að það vekur athygli að þingkonur ræði hér um menningu á landsbyggðinni. Það er spurning að halda aðra sérstaka umræðu fljótlega og bjóða körlunum að taka þátt. Ég þakka mjög svo áhugaverða umræðu og svör ráðherra.

Ég vil nefna þær breytingar sem voru gerðar 2012. Hv. þm. Oddný Harðardóttir fór yfir eðli styrkja sem voru teknir út úr fjárlaganefnd og færðir undir ráðuneytin. Ég held það hafi verið góð breyting, en vandamálið er að það fylgdu ekki fjármunir með. Ég hef líka áhyggjur af nýja fyrirkomulaginu sem hæstv. ráðherra lýsti hér, þ.e. menningarsamningunum sem fóru einhverra hluta vegna undir sóknaráætlun. Ég ítreka að fjármagnið hefur minnkað á undanförnum árum. Það verður að setja meira í þetta.

Það að Þjóðleikhúsið og aðrar stofnanir sinni landsbyggðinni er mikil áskorun, að vera staðsett á höfuðborgarsvæðinu og eiga að sinna landsbyggðinni. Ég vildi frekar sjá peninga setta í það sem er í gangi á landsbyggðinni sem er margt og mikið. Ég held að ég fari rétt með og mig langar að nefna það hér að áhugaleiksýningar sem valdar eru á hverju ári til þess að koma til borgarinnar og sýna fá að ég held engan styrk. Ég ætla aðeins að kanna það. Þetta kom bara upp í hugann þegar ég sat hérna úti í sal. Það er meira að segja áskorun að koma til borgarinnar og fá að sýna.

Varðandi skáldahúsin þá er staðsetning húsanna eða safnanna hér og þar um landið, eðli málsins samkvæmt, sum úti á landi og önnur ekki, en það sem ég er að segja er að það virðist ekki vera nein stefna eða sýn varðandi þessi söfn. Það er bara tilviljunum háð hvort þau eru á fjárlögum, hvort þau fá styrki og hvort þau sækja í menningarsamninga eða ekki. Það finnst mér óþægilegt. Mér finnst vanta einhverjar jafnræðisreglur varðandi þetta allt saman.

Ég þakka umræðuna og hvet ráðherra til dáða. Við þingkonur sem hér höfum talað erum ekki hættar vegna þess að þessu verður að breyta.