145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

ósk um viðveru heilbrigðisráðherra.

[11:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að fara þess á leit að umræðan hefjist ekki án þess að hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, komi til þings og taki þátt í henni. Þetta þingmál var áður til umfjöllunar á þessu kjörtímabili, fyrr á þessu ári, hygg ég. Þess var margoft óskað að hæstv. heilbrigðisráðherra kæmi til umræðunnar og að við fengjum að spyrja hann út í afstöðu hans til þessara mála.

Þetta mál snertir heilbrigðisráðuneytið, þetta mál snertir stofnanir sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið og þingmenn eiga kröfu á því við 1. umr. um málið að heilbrigðisráðherra komi til fundarins og að við fáum að heyra sjónarmið hans og að hann svari þeim spurningum sem við viljum beina til hans. Ég óska eftir því að hæstv. forseti verði við þeirri ósk.