145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

ósk um viðveru heilbrigðisráðherra.

[12:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið á dagskrá vegna þess að mér finnst alveg tímabært að við tölum aftur um það. Mér finnst líka fínt að málið sé lagt fram snemma þannig að það geti fengið sína umræðu. Þetta er eitt heitasta málið sem er til umfjöllunar, eða var alla vega á seinasta þingi. Það kemur mér alltaf á óvart, miðað við að menn segja að það skipti engu máli, hvað er samt ótrúlegur blóðhiti í mönnum yfir því beggja vegna línunnar, ef svo má að orði komast. Ég fagna því bara aftur að málið er hér á dagskrá og hlakka til að taka þátt í umræðunum.

Að því sögðu hvet ég hv. þingmenn meiri hlutans til að taka þátt í umræðunum vegna þess að það er hætt við því, eins og hv. þm. Karl Garðarsson kom inn á, að skilningurinn verði sjálfkrafa sá að ávallt sé um málþóf að ræða. Þetta er stórt mál og þetta er áhugavert mál. Mér finnst þetta vera mikilvægt mál og þess vegna tel ég að bestur bragur væri á því ef sem flestir þingmenn meiri hlutans tækju þátt í umræðunum og gæfu því séns að hér yrði ekki sjálfkrafa málþóf.

Þá óska ég einnig eftir því að hæstv. ráðherra verði hér til að ræða við okkur.