145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

ósk um viðveru heilbrigðisráðherra.

[12:06]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er reyndar, held ég, þriðja tilraun núna á tíu dögum um það bil þar sem reynt er að taka þetta mál á dagskrá. Í hin tvö skiptin fór fram gífurlega löng og mikil umræða um málin á undan þannig að þetta mál komst ekkert að. Við skulum ekki heldur gleyma því, þegar menn eru að tala um lýðræðislega umræðu, að það var mikil og lýðræðisleg umræða um þetta mál hér síðasta vetur. Það er ekki eins og þetta mál hafi ekki komið á dagskrá hér. Það er búið að ræða þetta mál aftur á bak og áfram. Við munum fá núna væntanlega í dag og jafnvel næstu daga nákvæmlega sömu ræðurnar með sömu rökunum og við fengum síðasta vetur. Er þetta ekki bara orðið ágætt? Eigum við ekki bara að fara að hleypa þessu máli fljótlega í eðlilegan farveg og í atkvæðagreiðslu þannig að meiri hluti þingsins fái að ráða í hvaða farveg þetta mál fer? Við skulum ekki heldur gleyma því að allar þessar umræður, allar þær ræður sem verða væntanlega fluttar í dag og á morgun og þær tafir sem (Forseti hringir.) hafa orðið á þessu máli, hafa leitt til þess að önnur mál, mikilvæg mál, hafa ekki komist á dagskrá.