145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:11]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir máli nr. 13, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum. Ég vil byrja á að segja hér í upphafi að ég er upp með mér að vera með þingmannamál sem ég fæ að koma á dagskrá og að það skuli fá svona mikla athygli, að þingmenn telji það svo mikilvægt að ráðherrabekkurinn eigi að vera fullsetinn. Ég hef ekkert á móti því. Hins vegar geri ég ráð fyrir að ráðherrarnir séu að vinna að sínum málefnum á fullu þannig að það verður að forgangsraða eftir mikilvægi málanna.

Það er einmitt það sem þetta mál snýst um í mínum huga og ástæða þess að ég tel mikilvægt að koma með það til þingsins og leggja það fram, það er forgangsröðun. Ég veit ekki betur en að öllum þingmönnum verði tíðrætt um forgangsröðun og mikilvægi hennar í grunnþjónustu landsins. Þar er ég að tala um öryggismál og löggæslu, heilbrigðismál, samgöngur svo ég tali nú ekki um menntakerfið. Allt þetta er grunnstoð ríkisins sem við verðum að styðja og allir tala um á tyllidögum að þurfi að forgangsraða til. Mér finnst eitthvað minna um efndir í þessari forgangsröðun stundum. Það er verið að eyða takmörkuðum tíma framkvæmdarvaldsins og ríkisvaldsins í að sýsla með það að selja áfengi, halda uppi góðu vöruúrvali og góðri þjónustu í áfengisverslunum. Í þetta fara fjármunir einnig og það hefur verið sýnt fram á það með úttektum og skýrslum að það kostar ríkissjóð töluverða peninga að halda úti áfengisverslun sem er greidd upp með heildsölu á tóbaki.

Er þetta forsvaranlegt? Ég segi: Nei, alls ekki forsvaranlegt. Þess vegna er þetta mál svona mikilvægt í mínum huga fyrir utan hvað það hefur marga aðra kosti fyrir landsbyggðina, fyrir verslunarfrelsi og annað slíkt. Þetta er líka prinsippmál, eitt af fáum prinsippmálum sem við ræðum mikið hér. Þess vegna er ég ánægður með að þingmenn sýni þessu máli áhuga og taki þátt í umræðunni sem ég hlakka til og vona að hún verði málefnaleg, byggð á rökum en ekki tilfinningum einum saman.

Þegar frumvarpið er samið er tekið mið af því að áfengi er engin venjuleg neysluvara. Það eru allir sammála um það. Það hefur aldrei verið vefengt í þessu máli, heldur er markmiðið að hafa stranga umgjörð áfram um sölu á áfengi þannig að það verði áfram ströng umgjörð til þess að koma í veg fyrir það sem við viljum öll forðast, að drykkja meðal unglinga aukist. Það er tekið mið af því. Það er til dæmis líka gert með því að allir, sama hversu gamlir þeir eru, munu þurfa að sýna skilríki. Það er takmörkun á opnunartíma, það þarf að fá leyfi hjá sveitarfélögum, áfengi verður ekki leyft til sölu í færanlegum söluvögnum og öðru álíka og í söluturnum þar sem eru líkur á því að ungt fólk safnist saman. Allt þetta er gert. Af hverju er þetta samt útfært þannig að það megi fara inn í allar verslanir, hvort sem þær eru matvörubúðir eða sérvöruverslanir eða sælkerabúðir eða hvaða nafni þær nefnast? Af hverju er ekki bara leyft að einkaaðilinn selji vöruna en þá í sérvöruverslun? Það er út af því að þá mundi þjónustan við landsbyggðina ekki verða sú sama. Hún mundi skerðast og landsbyggðin mundi ekki fá þau tækifæri sem hún þyrfti út úr þessu. Eitt af meginmarkmiðunum er að efla þjónustukjarna landsbyggðarinnar. Við erum með 49 vínbúðir í dag en við erum með 74 sveitarfélög. Ríkið gerir ekki öllum landsbyggðarkjörnum jafn hátt undir höfði og við heyrum stöðugt fréttir af því hvað það er erfitt að reka ýmsa þjónustu úti um landið. Ég tel að þetta sé einn liður í því að styrkja þessa kjarna til að veita þjónustuna, ef verslunareigendur geta fengið þær veltutölur sem áfengissalan er inn í reksturinn, hvað þá núna þegar ferðamenn dreifast um landið, þá mun þetta skila fjármunum frá ferðamanninum til landsbyggðarinnar.

Ég vil nefna eitt dæmi um hvað það er skakkt að ríkisvaldið sé með þessa sölu. Í uppsveitum Árnessýslu eru tvö byggðarlög hlið við hlið, Bláskógabyggð og Flúðir. Á báðum stöðunum eru reknar matvöruverslanir með helstu nauðsynjavöru. Þessir aðilar kappkosta að fá íbúa og ferðamenn og aðra á svæðinu til að versla við sig. Ríkisvaldið ákveður að setja upp áfengisverslun við hliðina á annarri versluninni en ekki hinni. Hvað getur litli verslunarrekandinn sem er í samkeppni við þann sem er með áfengisverslunina við hliðina á sér gert? Það er búið að rústa samkeppnisstöðuna á einu augabragði fyrir tilstilli ríkisins. Þetta er náttúrlega ekki boðlegt.

Einnig sjáum við núna svokölluð brugghús byggjast upp víða um landið. Þar er verið að brugga bjór úr besta vatni í heimi. Einn stærsti ferðamannastaður Írlands er til dæmis að sýna slíkar verksmiðjur, hvernig svona er framleitt. Þetta er vaxandi tækifæri í ferðaþjónustunni. Ef þessir aðilar gætu boðið ferðamönnum sýningarferðir og selt þessa vöru, fengið erlendan gjaldeyri og aukin áfengisgjöld færu í ríkissjóð þá yrði þetta til þess að styrkja uppbyggingu á landsbyggðinni.

Svo segja verslunarrekendur að þeir hafi ekki undan að slást við ferðamenn sem vilja kaupa af þeim áfengi með tappanum á. Þetta er bara eitthvað sem þeir þekkja flestir frá heimalöndum sínum. Þá komum við að því að ferðamenn, til dæmis frá Suður-Evrópu, sem þekkja þetta og hafa búið við frelsi í þessari sölu — þar sýna kannanir fram á að áfengisneysla sé að dragast saman, sérstaklega í léttvíni.

Mælingarvandinn á Íslandi er hins vegar mjög mikill til að fylgjast með þessu þegar ferðamannastraumurinn vex svona hratt og í stökkbreytingum og þeim sem hafa vínveitingaleyfi fjölgar um hundruð prósenta og eru að nálgast 1.000% aukningu á 20 ára tímabili. Það sýnir sig líka í því að aukin sala á áfengi hér á landi fer ekki í gegnum vínbúðirnar. Sýnt hefur verið fram á að eftir því sem vínbúðum fjölgar eykst salan ekki hlutfallslega heldur dregst saman miðað við fjölda vínbúða. Það eru ein af rökunum sem hefur verið beitt gegn þessu frumvarpi. Þau eru tvenn, það er hagnaður ÁTVR, ef maður er með einkasölu á einhverju og stuðlar að hagnaði þarf ekki að fjölga búðunum á höfuðborgarsvæðinu, þær eru 12, það þarf ekki að halda áfram að fjölga þeim með tilheyrandi kostnaði. Það dregur úr hagnaðinum. Aðrir segja að aukið aðgengi muni auka neysluna. Er þá verið að draga úr hagnaði Vínbúðarinnar og auka neysluna með því að fjölga vínbúðum? Þetta eru stjórnvöld að gera í dag. Það er oft svo mikill tvískinnungur í þessari umræðu, sem ég vona að við munum losna við.

Fyrst ég er farinn að tala um það sem ÁTVR hefur verið að gera þá liggur ljóst fyrir að hún ver um 30–50 milljónum á ári í markaðssetningu. Þetta snýst bara um að benda á að hún sé að selja áfengi þótt hún geri það undir merkjum þess að muna eftir skilríkjunum og öðru slíku. Það er alltaf hægt að minna fólk á að vera með skilríki, það þarf ekki að sýna lógó Vínbúðarinnar á eftir. Þetta er dulin auglýsing. Stærsta áfengisauglýsingin á landinu er frá Vínbúðinni.

Hvað hefur verið gert í skipulagsmálum? Ég veit ekki betur en að yfirvöld á höfuðborgarsvæðinu séu að reyna að draga úr notkun einkabílsins, reyna að efla þjónustukjarna í hverfunum og fá fólk til ganga eða hjóla þegar það sækir sína nærþjónustu. ÁTVR er með yfirlýsta stefnu um að færa allar verslanir sínar að stofnbrautunum þar sem mesta umferðin er þannig að þær séu sem sýnilegastar. Hvernig hefur það til dæmis þróast í Hafnarfirði? Vínbúðin fór úr miðbæjarkjarnanum í Helluhraun við hliðina á stórmarkaðnum. Smátt og smátt týnist fiskbúðin, tölvubúðin, apótekið, allt saman og hleðst þarna í kringum stofnbrautina. Það er ekkert íbúðarhús í sjónlínu frá versluninni. Þetta er að gerast alls staðar á höfuðborgarsvæðinu. Hvar eru stærstu verslunarmiðstöðvar og hvar fer mest verslun landsins fram? Er það ekki í Kringlunni og Smáralind? Við förum ekki inn í þessar verslanir án þess að labba fram hjá stórum glerveggjum með fullt af áfengi fyrir innan. Ef þetta frumvarp nær fram að ganga getum við séð fyrir okkur — jú, einhverjir hafa nefnt að Hagkaup muni selja áfengi — að áfengi hætti að vera rétt innan við anddyrið og verði komið lengst inn í horn.

Ég bara bið um það í umræðunni að horft sé svolítið heildstætt á málið og út frá mörgum sjónarhornum öðrum en tilfinningalegum.

Svo langar mig aðeins að koma að hagkvæmninni varðandi þetta. Ég tel mig hafa náð að sýna fram á að heildsalan á tóbaki haldi uppi hagnaði ÁTVR. Tóbakið er keypt í heildsölu af heildsala og sent svo frítt til smásöluverslananna. Þetta er eina umsýslan varðandi tóbakið sem er með 18% álagningu. Áfengi er með 16,5% álagningu og er líka sent frítt. Það er keypt af heildsalanum og selt svo í smásölu. Utan um áfengi þarf að reka verslanir, þessar 49 verslanir, með kassakerfi og starfsfólki og lager og húsnæðiskostnaði og öllu tilheyrandi en þar er meðaltalsálagningin bara 16,5%. Það sér hver maður að þetta reikningsdæmi gengur ekki upp.

Á Kópaskeri var til dæmis opnuð ný verslun. Maður getur að vísu ekki tekið innkaupakörfuna til að versla í matvöruversluninni án þess að horfa inn í ÁTVR af því að búðin er inni í versluninni. Í veltumesta mánuði ársins, desember sl., velti þessi verslun 1,4 milljónum hjá ÁTVR. Það sér hver maður að það borgar sig ekki að halda úti heilum verslunarrekstri með öllum þeim kostnaði sem því fylgir fyrir þessa veltu. Ef matvöruverslunin á staðnum, sem er að reyna að halda úti þjónustu fyrir íbúana og selja nauðsynjavörur, hefði fengið þessa veltu inn í reksturinn hefði það örugglega skipt sköpum. Kostnaðaraukinn hefði ekki verið mikill, ef nokkur, en það hefði breytt miklu.

Þarna er ég að sýna fram á það að hægt er að losa um eignir ÁTVR og nota þær til að greiða niður skuldir, setja í heilbrigðiskerfið eða lögregluna, og verslunin í landinu verður hagkvæmari og skilar þar af leiðandi meiri tekjum í ríkissjóð. Ferðamennirnir versla meira þannig að við fáum meira af gjaldeyristekjum og meira af áfengisgjöldum af erlendum ferðamönnum sem við getum svo notað í lýðheilsusjóð, eins og lagt er til í frumvarpinu, hlutfallið færi úr 1% upp í 5%.

Hvað ætlum við að gera með þessa peninga? Jú, við ætlum að fara að ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Hvað segir hún? Ef þið ætlið að gera eitthvað tengt lýðheilsu og áfengisneyslu skuluð þið hjálpa þeim sem eru verst staddir og veikastir og börnunum þeirra. (ÖJ: Styður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin frumvarpið?) Ég hef ekki borið frumvarpið undir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, eins og er (Gripið fram í.) spurt úr sal, en ég hef lesið aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og þar kemur fram að verð hefur helmingi meiri áhrif en aðgengi. Ég held því að vísu fram að aðgengi muni bara breytast en ekki aukast með tilkomu frumvarpsins. Ríkisvaldið mun enn hafa fulla stjórn á verðinu í gegnum áfengisgjöld. Annað sem kemur fram hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er að rekstur ríkisins felst oft í því að forsvarsmenn hverrar ríkisstofnunar eða ríkisfyrirtækis, það er erfitt að vita hvað maður á að kalla ÁTVR þar sem ekki er stjórn yfir því, reyna að reka búðirnar eins og venjuleg fyrirtæki. Um það segir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að einkaaðilarnir séu líklegir til að passa sitt vörumerki, að það bíði ekki hnekki, en opinberir aðilar hafi ekkert að óttast í þessu efni og þess vegna séu þeir líklegri til þess að fylgja ströngum reglum áfengislöggjafarinnar. Þetta kemur fram í frumvarpinu.

Ég tel að það verði gott skref fram á við að fá aukin framlög í lýðheilsusjóð svo hægt sé að einbeita sér að því að taka á því mikla vandamáli sem áfengisneysla er á Íslandi í dag þrátt fyrir okkar stranga og einstrengingslega kerfi — þrátt fyrir það. Þess vegna þurfum við, og ég er fyrsti maður til að leggja þeirri baráttu lið, að draga (Gripið fram í.) úr neyslunni og aðstoða þá sem veikastir eru til betrunar og fjölskyldur þeirra. Það er það sem við þurfum að gera og verðum að leggja áherslu á.

Talandi um þetta þá langar mig aðeins að koma inn á ölvunarakstur. Hann hefur oft verið nefndur líka, að hann muni aukast og annað slíkt. Ég sagði áðan að ÁTVR hefði flutt verslanir sínar út á stofnbrautirnar. Þær eru ekki í göngufæri frá íbúðarhúsnæði. Einn auðveldasti staðurinn fyrir lögreglumenn að finna þá sem aka ölvaðir er fyrir utan Vínbúðina. Núna erum við bara að hvetja fólk til þess að koma akandi með því að færa þessar búðir lengra frá því. Það er margt sem þarf að hugsa í þessu sambandi.

Svo er einn þáttur sem sýnir hvað kerfið er orðið gamalt, það er tæknin. Tækninni hefur fleygt hratt og mikið fram en lögin og löggjöfin og umhverfið hefur ekki tekið mið af því. Staðan er þannig núna að netverslun er alltaf að færast í aukana. Margir selja áfengi á netinu og íslensk þjóð má versla sér áfengi á netinu og fá það sent heim til sín, heim að dyrum og taka við því, svo framarlega sem viðkomandi búi erlendis og borgi enga skatta eða gjöld á Íslandi — svo framarlega sem það er staða málsins. Þetta er hægt og það sjáum við gerast núna trekk í trekk. Vínsmökkunarfélög sem eru ansi mörg flytja allt sitt áfengi inn sjálf og versla ekki í gegnum ÁTVR og vínáhugamenn og aðrir. Smátt og smátt er verslun með áfengi að færast frá vínbúðum ríkisvaldsins yfir í sérinnflutning þeirra sem eru með vínveitingahús og í gegnum netverslun. Ef við bíðum aðeins þarf kannski ekkert að breyta þessu, það hætta allir að versla í vínverslununum hvort sem er.

Svo hefur líka komið fram mikil gagnrýni á frumvarpið um að það gangi ekki nógu langt og heimili ekki auglýsingar. Af hverju er verið að afmarka aðgang að sterku áfengi sem þarf að vera á bak við afgreiðsluborð eða í læstum hirslum? Það er smávegis aðskilnaður þar. Ég tel að þetta séu bara hlutir sem megi ræða. Áfengislöggjöfin er stór og mikil og markmiðið með þessu frumvarpi er að hafa ekki of stór stökk í einu. Svarið við því er bara að við förum okkur hægt. Þess vegna er líka lagt til í frumvarpinu að löggjöfin verði endurskoðuð eftir eitt ár, hvernig hefur gengið. Það er ekki verið að kollvarpa núverandi kerfi þar sem gefið er færi á því að ÁTVR geti rekið vínbúðir sínar áfram í allt að eitt ár frá því að nýja kerfið tekur gildi. Verði þetta frumvarp samþykkt tekur nýtt kerfi gildi frá og með 1. september 2016.

Það er hægt að fara yfir ansi mörg atriði í þessu máli. Varðandi þær rannsóknir sem er alltaf verið að benda á — málið fékk mikla umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta ári og hér í þinginu þar sem var alltaf verið að vitna í rannsóknir — þá hef ég ekki enn séð hvernig þessar rannsóknir hafa verið heimfærðar á íslenskan veruleika eða hvernig er hægt að benda á að í öðrum löndum þar sem verslunin hefur verið gefin frjálsari sýni rannsóknir fram á að neyslan aukist sjálfkrafa miðað við það frumvarp sem við erum að fjalla um. Það er alltaf verið að benda á rannsóknirnar en ekki hvað er verið að benda á í þeim og hvernig það á við í þessu tilviki. Þar af leiðandi hef ég ekki haft áhyggjur af þessu lýðheilsulega séð. Þar fyrir utan, eins og ég kom inn á áðan, verður áfram ströng umgjörð um áfengissölu. Það er ekki eins og það verði algjört frelsi. Þvert á móti benda sumar rannsóknirnar og kannanir til þess — það er viss mælingarvandi í þessu — að áfengisneysla hafi dregist saman þar sem slakað hefur verið á höftunum. Svo er nýkomin út skýrsla í Bretlandi um að þegar þeir lengdu opnunartíma og annað þar hafi það ekki þau neikvæðu áhrif sem var spáð heldur þvert á móti.

Þetta styðst við það sem er mín trú og mín skoðun og trú í stjórnmálum, að við verðum að treysta einstaklingnum. Við hér á Alþingi eigum ekki að þurfa að hafa vit fyrir öllum landsmönnum, fyrir fólkinu í landinu. Fólkið í landinu treystir okkur ekki þannig að ég skil ekki af hverju við eigum þá að hafa vit fyrir því. Þetta snýst um að færa ábyrgðina, þetta kallast frelsi með ábyrgð. Ég tel að það sé ein af helstu ástæðum þess að ég sjálfur drekk ekki áfengi. Ég fékk bara þau skilaboð að það væri ég sem tæki þessa ákvörðun, þetta væri erfið ákvörðun því að það væri ekkert grín að standa í áfengisdrykkju og ég þyrfti að taka ákvörðun um hvort ég ætlaði að gera það. Ég þurfti að sýna ábyrgð og taka þessa ákvörðun fyrir mig og ég hef gert það. Ég ákvað að drekka ekki áfengi. Um það snýst þetta í grunninn, að treysta fólkinu, ekki að setja því boð og bönn sem það mætir með algjörri uppreisn.

Svo vil ég koma að öðru máli er varðar viðurlögin. Um þau er sérkafli. Núverandi frumvarp hefur tekið þeim breytingum sem 1. minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar lagði til eftir umfjöllun í nefndinni, þar á meðal að gera viðurlagakaflann skýrari. Það er ekki verið að þyngja refsingarnar eða draga úr þeim heldur er bara verið að gera kaflann skýrari, eins og þekkist í annarri löggjöf undanfarið, þannig að það liggi betur fyrir hvað átt er við. Það er ein breytingin sem var gerð. Svo eru breytingarnar sem ég kom inn á varðandi að allir þyrftu að sýna skilríki, endurskoðun innan árs og að vínbúðirnar fengju að starfa í eitt ár eftir að kerfið kæmi til framkvæmda.

Margir hafa áhyggjur af því að úrval af áfengi í verslununum muni dragast saman. Ég hef þá trú að einkaaðilinn veiti betri þjónustu og muni sinna þessu betur en ríkisvaldið gerir. En ef sú yrði raunin að úrvalið drægist saman þá yrði það staðfest að íslenska ríkið hefði varið skattfé almennings í að halda uppi áfengisúrvali á Íslandi. Hver ætlar að réttlæta það? Hver ætlar að réttlæta það að nota skattfé í það? Ef einkaaðilinn mun ekki bjóða upp á aukið úrval er það af því að varan selst ekki og af því er enginn hagnaður þannig að ef ríkið hefur gert það þá hlýtur það að hafa verið gert með tapi ef einkaaðilinn sér sér ekki fært að gera það. Þetta hlýtur að liggja ljóst fyrir.

Ég ætla að undirstrika hér í lok ræðu minnar að þetta snýst um forgangsröðun. Við eigum að nota fjármuni og krafta ríkisvaldsins til löggæslu og heilsugæslu, menntamála og innviða, það er númer eitt, tvö og þrjú. Við eigum ekki að standa í smásölu sem fer hvort sem er fram af einkaaðilum með vínveitingaleyfi, í gegnum internet og beinan innflutning. Ég tel þetta mjög mikilvægt. Við getum notað hagnaðinn sem við fáum af þessu til að vinna að forvarnaverkefnum og vinna bug á þeirri meinsemd sem áfengisneysla á Íslandi er nú þegar. Vandamálið er mikið nú þegar.

Ég vona að við eigum eftir að eiga málefnalega umræðu hér, geymum tilfinningarnar aðeins þangað til síðar og málið fái að koma hingað aftur í 2. umr. og fá atkvæðagreiðslu. Ég þakka fyrir þann áhuga sem málinu er sýndur. Það staðfestir að þetta er mikilvægt mál og það þarf því umræðu. Það er ekki venjan að þingmannamál fái mikla umræðu eða mikla þátttöku í umræðunum. Ég fagna þessu og hlakka til umræðunnar.