145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skal ég gera, en ég vísa til þess að þeir aðilar hér á landi sem hafa með þessi mál að gera, meðal annars skýrslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, hafa talað mjög afdráttarlaust í þessu máli. Þar vísa ég til landlæknisembættisins sérstaklega sem birti yfirlýsingar sínar 17. júlí á síðasta ári og aftur og ítrekað þegar málið kom síðast fyrir Alþingi. Ég horfi líka til þess að öll samtök sem beita sér í vímuefnamálum og æskulýðssamtök eru andvíg þessu frumvarpi.

Þótt formaður Sjálfstæðisflokksins hafi talað fyrir sinn hatt hér við stefnuræðuna í haust, þá hefur Stjórnarráðið haft önnur orð uppi. Ég vísa þar í yfirlýsingar á vef Stjórnarráðsins frá 24. janúar árið 2014 þar sem eru yfirlýsingar sem ganga í gagnstæða átt. Er hv. þingmaður sammála mér um að það sé eðlilegt að hæstv. (Forseti hringir.) heilbrigðisráðherra sé viðstaddur þessa umræðu? Hann hefur veigrað sér við að koma í þingsal þegar þetta mál (Forseti hringir.) hefur verið til umfjöllunar, en hefur hv. þingmaður rætt þetta við heilbrigðisráðherra?