145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og sér í lagi fyrir að sanna þann punkt að hér koma fram nýir punktar og rökræðan heldur áfram, með réttu.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í opnunartímann. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sveitarfélög geti takmarkað opnunartíma, en þau geta hins vegar ekki ákveðið að hafa hann frjálslegri en frumvarpið tilgreinir. Samkvæmt frumvarpinu má opnunartími þeirra verslana sem munu geta selt áfengi einungis vera til átta á kvöldin. Það lít ég á sem galla í frumvarpinu og velti fyrir mér hvers vegna sveitarfélögunum er ekki einfaldlega gefnar frjálsar hendur með þetta. Ég get ekki ímyndað mér að misræmi í reglum milli sveitarfélaga mundi hafa teljandi áhrif, alla vega ekki slík að sveitarfélögin gætu ekki brugðist við sjálf eftir eigin höfði. Þess vegna velti ég fyrir mér hvers vegna þetta þarf að vera í lögum, hvers vegna sveitarfélögin ákveða það ekki alfarið sjálf.