145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

ósk um viðveru heilbrigðisráðherra.

[13:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir þessa ósk, eins og kom fram í morgun, og þykir frekar leitt að á svona löngum tíma hafi ekki náðst í ráðherra og hann ekki komið því til skila hvort hann geti yfir höfuð verið við umræðuna í dag. Það er mjög mikilvægt að vita því að eins og komið hefur fram er verið að vitna til orðræðu hæstv. ráðherra sem þingmenn mundu gjarnan vilja inna hann eftir í dag í ljósi umræðunnar sem fer fram hér.

Það hafa líka verið bornar fram spurningar sem snúa beint að málinu af þingmanni Framsóknarflokksins, sem ég tel að væri afar áhugavert að fá svör hæstv. ráðherra við. Ég tek undir að það er eiginlega ómögulegt að hefja þessa umræðu nema fyrir liggi hvort hæstv. ráðherra getur verið með okkur í dag eða ekki. Ég held að það sé ekki til of mikils mælst að hægt sé að ná í ráðherra á þessum tíma eða nálgast einhver svör frá honum.