145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Frosta Sigurjónssyni fyrir afar fróðlega ræðu þar sem fram kemur, og við erum minnt á, að nánast allir þeir aðilar í landinu sem sinna heilbrigðis- og lýðheilsumálum eru andvígir þessu frumvarpi. Mér finnst furðulegt ef Alþingi ætlar ekki að hlusta á þessar raddir.

Nú hefur komið fram við umræðu um þessi mál að verulegur árangur hefur náðst gagnvart yngstu kynslóðinni varðandi áfengisneyslu. Menn þakka það mjög öflugu forvarnastarfi. 1. flutningsmaður frumvarpsins hefur jafnvel viljað gera lítið úr þeim árangri en telur þó og færir einhver málefnaleg rök fyrir því, sem eiga að heita, að þar með skipti ekki máli hver (Forseti hringir.) dreifingarmátinn er, að það sé hægt að gera hann frjálslegri en nú er í ljósi þess að við náum þessum árangri með forvörnum. Ég vil heyra álit hv. þingmanns á þessu.