145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:53]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu spurningu frá hv. þingmanni. Það kemur fram í frumvarpinu að menn binda vonir við að til að vega upp á móti því að aðgengi verður stóraukið, tvöfaldað eða þrefaldað, sé hægt að sporna gegn aukinni áfengisneyslu, t.d. unglinga, með því að auka fræðslu og forvarnir af því tagi. Þetta er svipuð hugmynd og að segja: Jæja, okkur hefur gengið vel með því að vera með kaðal til að minnka umferðina, við ætlum að losa bara annan endann og herða hinn hnútinn tvöfalt meira. Ég er ekki viss um að kindurnar mundu haldast innan girðingar með slíkum vinnubrögðum.

Það þarf að nota allar þessar aðferðir. Það kemur fram í skýrslum að ein mikilvirkasta aðgerðin er að takmarka aðgengi og það er það sem við þurfum að gera. Við þurfum líka að vera dugleg í forvörnum og fræðslu til að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur. Það er mikið svigrúm til að hér muni allt fara á verri veg (Forseti hringir.) og við þurfum að gera hvort tveggja.