145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að mér finnst mikilvægt að laga suma hluti í þessu og vissulega kannski breyta eða efla aðrar áherslur en einfaldlega bara viðskiptafrelsið, en í málflutningi andstæðinga þessa frumvarps tek ég eftir því í orðræðu hv. þingmanna að þeir fullyrða blákalt, og vísa í ýmsar rannsóknir sem er gott og blessað, að aukið aðgengi auki heildarneyslu — þessu skal ég trúa í bili — ekki síst meðal unglinga, er síðan sagt.

Ég vil benda á tvennt sem ég tel staðreyndir og velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé einhvern veginn ósammála mér um að það séu staðreyndir, að aðgengið hefur aukist, margfaldast seinustu 15 árin á Íslandi, og að unglinganeysla hefur dregist saman. Heildarneyslan hefur vissulega aukist, þar á meðal í kjölfar lögleiðingar bjórsins. Neysla unglinga hefur hins vegar dregist saman. Er það ekki tilfellið, virðulegi forseti?