145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:09]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er spurning sem ég hlakkaði til að fá og bjóst við. Þetta er spurningin þar sem öllu er snúið á hvolf og spurt hvort ég sé talsmaður þess að banna áfengissölu í landinu eða draga úr áfengissölu, allt með þeim rökum. Það sem ég er á móti er að við förum úr öskunni í eldinn og ég er að færa rök fyrir þeirri skoðun. Ég er ekki talsmaður ófrelsis eða þess að draga úr því að fólk sem hefur aldur og frelsi til að kaupa vín geti gert það. Ég segi: Við skulum ekki fjölga hillumetrunum í matvörubúðunum. Ég er ekki þar með að segja að ég vilji leggjast í að hérna verði gert stórbreyting í þá átt að fækka hillumetrum í ÁTVR, alls ekki. Ég er nefnilega talsmaður frelsis í málinu og held að við höfum náð góðu jafnvægi milli forvarna og takmarkana á aðgengi.

Ég tel að þetta frumvarp bæti ekki málið. Ég held að það sé skref í ranga átt en það þýðir hins vegar ekki að ég sé talsmaður þess að við innleiðum einhver gríðarleg höft í málinu. Alls ekki.