145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:10]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki langt liðið á þessa umræðu, það eru mjög margir á mælendaskrá en málið er þegar farið að skýrast mjög vel. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig standi á því að fram komi frumvarp þar sem mjög erfitt er að finna rökin sem mæla með samþykkt þess en hin gagnstæðu rök eru mjög augljós. Nái þetta frumvarp fram að ganga þá er líklegt að gengið verði á lýðheilsusjónarmið samkvæmt athugun þeirra sem sýsla með slík efni. Það er líklegt að þetta sé neytendum í óhag einfaldlega vegna þess að úrvalið á boðstólum, einkum á landsbyggðinni, muni minnka, það muni draga úr því. Það eru líkur á því að verð muni hækka, (KG: Hræðilegt.) að kostnaður við dreifingarmátann verði hærri. Hræðilegt, segir hv. þm. Karl Garðarsson. Já, það er það vegna þess að ég átti ótalið síðustu staðreyndina sem menn vefengja ekki að tekjur ríkissjóðs muni minnka. En kannski vorum við að fá ljósi varpað á skýringuna á því hvers vegna þetta frumvarp er að koma fram í orðaskiptum hv. þingmanna Þorsteins Sæmundssonar og Frosta Sigurjónssonar hér áðan.

Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson beindi þeirri spurningu til hv. þm. Frosta Sigurjónssonar hvort greina mætti einhver mynstur í athugasemdum sem þinginu hefði borist um frumvarpið utan úr þjóðfélaginu. Hvernig lægju línurnar þar? Gæti verið að þær væru hagsmunatengdar á einhvern hátt? Þá kemur í ljós að þeir sem sinna heilbrigðis- og lýðheilsumálum, Læknafélag Íslands, Félag hjúkrunarfræðinga, landlæknisembættið, samtök þeirra sem berjast gegn vímuefnum, æskulýðssamtök, eru allir andvígir frumvarpinu en þeir sem eru hliðhollir frumvarpinu eru hagsmunaaðilar í verslun, það eru stóru verslunarkeðjurnar sem gjarnan vilja fá þessa verslun inn í sínar hillur. Þetta er bara staðreynd. Þá spyr maður sjálfan sig hvort það geti verið að verið sé að reka hagsmuni þessara aðila með frumvarpinu í ljósi þess að það stríðir gegn lýðheilsumarkmiðum sem samfélagið hefur sett sér, er neytendum í óhag og ríkissjóði líka. Þá er bara tvennt eftir. Það eru hagsmunir og það er pólitík og kannski svolítil pólitísk kredda.

Hæstv. fjármálaráðherra landsins er jafnframt formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann talaði fyrir hönd síns flokks við stefnuræðu hér í haust og sagði m.a., með leyfi forseta:

„Má ég nefna það hér hvort við treystum fólkinu í landinu til að sækja áfengi í venjulegar verslanir eða ekki? Í mínum huga er það augljóst mál. Það eru röng skilaboð frá þinginu að treysta ekki fólkinu til þess að kaupa áfengi í venjulegum verslunum, að það þurfi opinbera starfsmenn til þess að afhenda slíka vöru yfir búðarborðið. Það eru röng skilaboð.“

Hæstv. forseti. Þetta finnst mér svolítið undarlegar yfirlýsingar, og er augljóst hvenær ég lauk tilvitnun í hæstv. ráðherra fjármála. Þetta finnast mér undarleg skilaboð um mismuninn á opinberum starfsmönnum og þeim sem afgreiða í öðrum verslunum. Það er enginn að tala um slíkan mismun. Þetta er ekkert mismunandi eða ólíkt fólk. Það starfar við mismunandi aðstæður og samkvæmt mismunandi regluverki. Núna erum við að ræða hvaða dreifingarmáta við ætlum að hafa þegar um er að ræða áfengi sem öllum ber saman um, líka flutningsmönnum frumvarpsins, að er engin venjuleg verslunarvara, hún er það ekki. Og við erum að ræða það, taka pólitíska ákvörðun um það hvernig við ætlum að haga þessari dreifingu.

Ég vil vekja athygli á skrifum sem komið hafa m.a. frá ýmsum stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins og ég vil gjalda varhuga við því að við setjum endilega samasemmerki á milli ummæla forsvarsmanna þessa stjórnmálaflokks og allra hinna sem kunna að styðja flokkinn. Mig langar til að vitna í fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins og mjög eindreginn stuðningsmann Sjálfstæðisflokksins, Styrmi Gunnarsson, sem skrifaði grein í Morgunblaðið 26. september sl. Þar talar hann um áfengismálin, dreifinguna og ÁTVR. Niðurlag þessarar greinar er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Hver og einn er frjáls að skoðunum sínum um þessi efni sem önnur. En þegar kemur að stefnumörkun stjórnmálaflokks þurfa fleiri raddir að heyrast.“

Það er alveg rétt. Ég minnist þess að ég og hv. 1. flutningsmaður frumvarpsins, Vilhjálmur Árnason, tókum þátt í fjölmennum umræðufundi í Valhöll í fyrrahaust. Þar voru sennilega einvörðungu sjálfstæðismenn mættir til leiks en þeir voru mjög margir sem komu að máli við mig ekkert síður en við hv. flutningsmann frumvarpsins, Vilhjálm Árnason, og sögðu mér að þeir væru hjartanlega sammála mér. Og ég hef átt samræðu við fjöldann allan af stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins, flokksbundnum og óflokksbundnum, sem eru algerlega á sama máli. Ég vil því hvetja til þess að við læsum okkur ekki inn í einhverjar flokkshirslur þegar við tökum afstöðu til þessa máls og tökum hv. þm. Vilhjálm Árnason á orðinu og ræðum þetta málefnalega og þá út frá lýðheilsusjónarmiðum og neytendasjónarmiðum. Hv. þingmaður gerði það t.d. þegar hann sagðist hafa áhyggjur af því að fyrirkomulag ÁTVR væri slæmt fyrir verslun í litlum byggðarlögum úti á landi og það ætti að færa þessa verslun inn í almennar búðir. En ef verslunareigandinn vill ekki fá brennivín, vín og bjór inn í búðirnar, hvað þá? (VilÁ: Þá er það blómabúðin.) Þá er það bara blómabúðin en ef blómabúðin vill ekki fá það, þá hvað? (VilÁ: Tækifæri fyrir fleiri.) Þá er tækifæri fyrir fleiri, sem sagt, þetta á allt saman að vera fullkomlega á forsendum duttlunga verslunarinnar. Það verður niðurstaðan þegar upp er staðið. Með öðrum orðum, það er gegn lýðheilsusjónarmiðum, það er gegn neytendasjónarmiðum. Það deilir enginn um það að í smáum byggðarlögum verður úrvalið miklu minna en lágmarkið 140 tegundir sem eru á boðstólum í ÁTVR-verslunum, jafnvel á smæstu stöðum. (Gripið fram í.) Í boði skattgreiðenda, er kallað fram í. Áfengisverslunin og tóbaksverslunin skilar arði til ríkisins þannig að það er rangt að tala um hún sé í boði skattgreiðenda. Hún skilar því og þar eiga sér stað ákveðnar millifærslur frá þéttbýli til dreifbýlis á nákvæmlega sama hátt og við kaupum bensínið á sama verði hvar sem er á landinu. Er það ekki niðurgreiðsla? Að sjálfsögðu gagnvart þeim stöðum sem eru mjög fámennir og verslunin minni. Að sjálfsögðu. Er þingmaðurinn að mæla gegn því? Sér hann ofsjónum yfir því að fjármunir séu fluttir frá þéttbýlinu til dreifbýlisins? Sér hann ofsjónum yfir því? Hvernig væri að ræða þetta pínulítið málefnalega?

Svo langar mig til að segja eitt. Hv. þingmaður segir að hver maður eigi að taka ábyrgð á sjálfum sér og hann segist hafa tekið þá ákvörðun sjálfur að neyta ekki áfengis. Gott, það er hans ákvörðun. Ég hef ekki tekið þá ákvörðun en saman eigum við að eiga eitt markmið: Það er að vilja byggja upp gott samfélag fyrir alla þegna þessa lands, fyrir okkur öll, búa til umhverfi sem framkallar það besta í okkur og reynir að verja þá sem hafa einhverja veikleika t.d. á þessu sviði. Það eru unglingarnir og viti menn, það er líka fullorðið fólk og aldrað fólk. Það eru mjög margir sem eru mjög veikir fyrir áfengi. Það er staðreynd og þeir sem sinna vímuvörnum hafa hamrað á þessu. Og að sjálfsögðu, það þarf ekki að beita öðru en heilbrigðri skynsemi til að svara þeirri spurningu hvort það hafi einhver áhrif að hafa vín eða þessa vöru alltaf fyrir augunum þegar maður fer út í búð, ætli það sé ekki munur á því annars vegar og hinu að hafa hana í sérverslunum? Auðvitað. Ég þekki það af eigin reynslu. Ég bjó í Danmörku í tvö ár. Ég fann að það hafi áhrif á mig og ég held að það hafi áhrif á okkur öll. Er það vegna þess að ég vantreysti hinum frjálsa markaði til að koma víni ofan í þjóðina? Nei, ég hef allt of mikla trú á honum. Það er þess vegna sem ég er hræddur við hann vegna þess að hann verður ágengur. Hann er ágengari en hitt formið.

Ég tek undir með hv. þingmanni að mér finnst ÁTVR iðulega hafa varið of miklum peningum í auglýsingar og verslunin verið fullágeng fyrir minn smekk og ég hef komið mótmælum á framfæri út af því. En hitt að virkja þetta inn í markaðsmekanismann og hvatana sem þar eru fyrir hendi mun að sjálfsögðu auka neysluna. Ég mun koma nánar inn á það í síðari ræðu minni.

Við eigum að sjálfsögðu að taka ábyrgð á sjálfum okkur og samfélagi okkar, börnunum okkar og okkur öllum og það á að búa til umhverfi sem er hagstætt og gott fyrir þá sem hafa þessa veikleika gagnvart áfengi, þó að hinir þurfi að leggja það á sig að ganga fyrir hornið til að kaupa sér Johnnie Walker eða hvað það nú er. Það er ekki nein hræðileg fórn, hefði ég haldið. En stóru verslunarkeðjurnar pressa á og því miður verður ekki annað sé en Sjálfstæðisflokkurinn hlíti kalli þeirra vegna þess að við erum að tala um hagsmuni. Þetta er hagsmunabarátta. Þetta er barátta þeirra sem berjast í þágu lýðheilsu og stilla sér upp með læknasamtökunum, með hjúkrunarfræðingum, með landlæknisembættinu, með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, með æskulýðssamtökum þessa lands og með þeim sem beita sér í þágu vímuefnavarna. Er um við í því liði eða erum við með verslunarkeðjunum sem heimta auðvitað að fá þetta inn í sínar hillur? Erum við þar? Nei. Ég er ekki þar. Og mér finnst það dapurlegt ef þingið ætlar að fara að feta núna út á þessa braut.

Hæstv. forseti. Ég hef óskað eftir því að hæstv. heilbrigðisráðherra verði viðstaddur þessa umræðu. Mig langaði til að byrja á því nefnilega, væri hann í salnum, að vísa í yfirlýsingar sem er að finna á upplýsingavef Stjórnarráðsins sem settar voru þar 24. janúar árið 2014 og ganga þvert á þau markmið sem boðuð eru í þessu frumvarpi. Og þegar hæstv. heilbrigðisráðherra er mættur til leiks þá langar mig til að lesa upp hans eigin orð og spyrja hvort hann kannist við sjálfan sig og hvort hann ætli að kannast við sjálfan sig og yfirlýst stefnumarkmið ríkisstjórnarinnar eins og hann hefur kynnt þau eða hvort hann ætlar að hlíta kalli stórverslunarkeðjanna hvaða nafni sem þær nefnast. Ég ítreka það að mér finnst fráleitt að halda þessari umræðu áfram án þess að ráðherrann sem fer með þennan málaflokk láti svo lítið að verða við óskum um að koma í þingsal til að eiga við okkur orðastað.