145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum alveg fullkomlega sammála, ég og hv. þingmaður, um að mikilvægt sé að verja fjármunum og auknu fé til forvarnamála. Það hefur sýnt og sannað sig að slíkt skilar árangri og hefur gert það til dæmis varðandi yngsta aldursflokkinn. Það er enginn vafi á því þannig að það skiptir gríðarlegu máli og ber að þakka það mikla starf sem hefur verið unnið á því sviði. Það sem ég er að leggja áherslu á er að með því breytta fyrirkomulagi sem hv. þingmaður leggur til mun ríkissjóður verða af fjármagni, milljörðum króna, sem m.a. væri hægt að verja til mála af þessu tagi. Síðar er það náttúrulega hitt, þegar horft er inn í heilbrigðiskerfið og hlustað á það sem læknarnir segja um skorpulifur og tilkostnað af sjúkdómum sem tengjast mikilli áfengisneyslu. (Forseti hringir.) Staðreyndin er sú að tölurnar sýna að áfengisneysla hefur verið að aukast, (Forseti hringir.) gerði það náttúrulega verulega með tilkomu bjórsins, (Forseti hringir.) og mun aukast enn, eins og hv. þingmaður hefur viðurkennt í greinargerð sinni.