145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:36]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar í þessu máli, þessu lýðheilsumáli, að það eigi að gilda sama fyrirkomulag um landið allt. Á lifrardeildinni á Landspítalanum liggur fólk hvaðanæva að af landinu. Við erum að fást við vandamál okkar samfélags og við erum að reyna að taka á þessum málum á skynsamlegan og uppbyggilegan hátt fyrir allt okkar samfélag hvar sem við búum á landinu. Þannig að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að reyna að setja okkur reglur sem eru almennt til hagsbóta fyrir samfélagið og eru samfélagslega ábyrgar. Við eigum að hlusta á sjónarmið lýðheilsusamtaka, læknasamfélagsins, hjúkrunarfræðinga, æskulýðssamtakanna. Við eigum að hlusta á þetta fólk sem kemur fram í sameiningu, óháð búsetu í landinu. Þannig að þessu leyti tel ég að við eigum að hafa sama fyrirkomulag alls staðar.