145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að spyrja hann út í eitt atriði í greinargerð með frumvarpinu vegna þess að hér kom fram áðan spurning til hv. þingmanns um það hvort hann gæti varið þá skoðun að meiri hagnaður væri af áfengissölu ÁTVR en tóbakssölu. Mér er ekki nokkur leið að skilja hvernig menn finna það svo sem út, enda er þetta almennt orðað í greinargerðinni. En það segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Einnig má spyrja þeirrar grundvallarspurningar hvort eðlilegra sé að ríkið hirði þessar tekjur af kaupendum áfengis, sem eru skattgreiðendur, en einkaaðilar. Sú spurning verður sérstaklega áleitin í ljósi þess að einkarekstur er jafnan hagkvæmari en opinber rekstur.“

Nú hefur hv. þingmaður mikla reynslu af þessu sem fyrrverandi forustumaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Mig langar að fá álit hans á þeirri fullyrðingu að einkarekstur sé jafnan hagkvæmari en opinber rekstur.