145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta ævintýralegar fullyrðingar. Spurt er út í það hvort eðlilegt sé að ríki hafi hagnaðinn og ábatann fremur en einkaaðilar, menn eru eitthvað að velkjast í vafa um slíkt, og að sjálfsögðu er það fullkomlega eðlilegt ef um slíkt er að ræða og hægt er að koma því við. Að sjálfsögðu. Því markaðslögmálum á að beita á tilteknum sviðum og víðu sviði í samfélaginu, síðan eru aðrir þættir, ekki síst þeir sem lúta einhvers konar einokun, þar sem það gildir ekki. Að sjálfsögðu ekki. Þá er einkarekstur mjög til skaða, hann getur verið mjög til skaða vegna þess að þar nýtur samfélagið ekki ávinnings sem kann að vera í einhvers konar samkeppni sem stundum getur verið góð, en þegar til sögunnar eru komnar stórar blokkir eins og t.d. í versluninni (Forseti hringir.) hafa þær ekki sýnt sig að skila ávinningnum til samfélagsins og til neytenda sem skyldi. Það þekkir þessi hv. þingmaður kannski manna best.