145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:57]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurninguna. Það sem ég yrði hrædd um er að þjónustan, sérstaklega á landsbyggðinni, mundi versna vegna þess að það verður bara að viðurkennast að ÁTVR hefur veitt mjög góða þjónustu úti á landi. Miðað við þann raunveruleika sem við þekkjum held ég að hætta gæti verið á því að úrvalið mundi minnka og þjónustan versna. Ég held að það ætti ef til vill ekki endilega við á stærstu stöðunum, t.d. Akureyri, og ég held að í Reykjavík þyrfti ekki að hafa áhyggjur kannski, en ég tel að þjónusta á landsbyggðinni yrði verri. Það er þannig í dag að maður getur meira að segja pantað ákveðnar víntegundir og þær eru komnar daginn eftir. Ég er ekki endilega viss um að eina verslunin á litlum stöðum gæti tryggt slíka þjónustu. En við skulum líka vera meðvituð um það að þessi þjónusta kostar. Við erum svo sem að reka ÁTVR, það er ekki eins og sá rekstur sé ókeypis.