145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:01]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er líka rétt sem hv. þingmaður segir að það eru ekki alls staðar áfengisverslanir. Sums staðar er opnunartíminn mjög stuttur. Minnstu sveitarfélögin búa ekki endilega við mjög góða þjónustu hvað þetta varðar.

Mér finnst svolítið erfitt í rauninni að meta hvort þetta verður betra eða verra fyrir neytendur. Það eru bæði rök með og á móti hvað það varðar. Eins verðlagningin og annað. Þess vegna finnst mér svolítið freistandi, ef farið verður út í þessar breytingar, að gera það í einhverjum stuttum skrefum. Ég skil alveg að verslunin kalli eftir þessu. Ég held að hún sjái líka fyrir sér að með því að selja hvítvín, rauðvín og fleira þess háttar þá seljist meira af vínberjum, ostum, kexi og svona. Veltan mun örugglega aukast í framhaldinu. Mér finnst það ekki einu rökin, ég hlusta ekki bara á rök verslunareigenda í þessu máli. Ég veit að þeir eru kannski fyrst og fremst að hugsa um sjálfa sig í þessu máli (Forseti hringir.) en ekki endilega neytendur.