145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:06]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Ég var ekkert búin að hugsa þetta fyrr en hér og nú þannig að ég get eiginlega ekki svarað þessu. Það eru örugglega rök með og á móti því að sveitarfélögin hafi meira sjálfsákvörðunarvald hvað þetta varðar. Við gætum endað með eitt sveitarfélag þar sem áfengi væri flæðandi og önnur væru kannski fastheldnari. Ég veit ekki hvernig það mundi enda.

Mér finnst mega skoða margt í þessu máli betur. Ég held að sé ágætt að við tökum þessa umræðu, hvað svo sem verður nákvæmlega um þetta mál. Ég er pínu þar að vera ekkert rosalega hrædd við það þó að við færum okkur aðeins í einhverjar aðrar áttir, jafnvel þó að við mundum leggja niður ÁTVR og leyfa einkaaðilum að reka vínverslanir. Þá yrðu klárlega sveitarfélögin með einhverjum hætti að skipuleggja hvar þessar verslanir ættu að vera staðsettar. Auðvitað þyrftu helst að vera einhver landslög um það hvenær þær mættu vera opnar og þar fram eftir götunum, hverjir mættu fá afgreiðslu, hverjir mættu afgreiða og allt það. Það er margt í þessu máli, (Forseti hringir.) eins og ég sagði.

Ég kem hingað upp í 1. umr. án þess að hafa kannski hugsað það til enda, þetta er ekki það mál sem mér finnst mest spennandi á þessum (Forseti hringir.) þingvetri, svo að það sé sagt.