145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:10]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mun ekki sjálf prívat og persónuleg leggja fram þingmál um að við förum að selja bjór í verslunum, en ef einhver millileið getur verið, ég tala ekki um ef meiri hluti væri í þinginu núna fyrir því máli sem við erum að ræða, þá fyndist mér til þess vinnandi að reyna að ná einhverri lendingu sem væri ekki jafn afdrifarík eða væri ekki jafn stórt skref. Að sjálfsögðu eigum við að horfa til rannsókna sem hafa verið gerðar víða erlendis. Það er einmitt þannig að sums staðar er seldur bjór í verslunum sem er léttari en sá bjór sem við erum að drekka. Ég veit ekki, oft er bara kúltúrmunur á, hvort við getum endilega borið okkur alfarið saman við aðrar þjóðir hvað þetta varðar. Ég er svo sem ekki endilega að tala fyrir því eða mælast til þess að þetta verði gert, en mér mundi finnast það samt vera betra skref en það sem við ræðum hér, sem er í rauninni að setja áfengi inn í matvöruverslanir.