145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:35]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvarið. Já, ég kynnti mér vel umsagnirnar um málið. Ég sat í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þegar málið var til afgreiðslu á síðasta þingi.

Varðandi yfirfærslu rannsókna þá tel ég að við Íslendingar séum ekkert frábrugðnir öðrum þjóðum þrátt fyrir landfræðilega legu landsins okkar. Ég tel að við getum yfirfært þær rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis á okkur eins og kemur fram í umsögnum frá velferðarnefnd Alþingis um rannsókn sænsku lýðheilsustofnunarinnar árið 2008 og háskólanemendurnir á Bifröst sýndu síðan fram á í sínum rannsóknum að sömu niðurstöður væru hér á landi og í Svíþjóð.