145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé nefnilega málið að það liggur fyrir alveg gríðarlega mikið magn af góðum upplýsingum sem við eigum auðvitað að nýta okkur.

Það er eitt annað atriði sem hv. þingmaður kom örsnöggt inn á í ræðu sinni og það var að áfengi væri engin venjuleg neysluvara. Því er ég alveg hjartanlega sammála. Ég hjó nefnilega eftir því að það kom einnig fram í framsöguræðu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar að áfengi væri engin venjuleg neysluvara. Ef maður les hins vegar greinargerðina með frumvarpinu þá kemur trekk í trekk fram að þar er einmitt fjallað um áfengi sem hverja aðra neysluvöru. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort henni finnist ekki vera (Forseti hringir.) svolítið furðulegt að segja annars vegar eitthvað í framsöguræðu en rökstyðja (Forseti hringir.) svo mál sitt með greinargerð sem segir allt annað.