145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:43]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs í andsvari við hv. þingmann fyrst og fremst til að færa þingmanninum þakkir fyrir mjög góða ræðu og fyrir að fara yfir sjónarmið þeirra sem skiluðu áliti til þingnefndar þegar þetta mál kom til kasta hennar og hvernig þar var rauður þráður í áliti allra þeirra sem sinna heilbrigðismálum, lýðheilsumálum og vímuvörnum að vara okkur við því að samþykkja þetta frumvarp.

Nú er það svo að menn hafa talað um kostnað. Menn hafa talað um að ríkið verði af hálfum öðrum milljarði þegar arðurinn er tekinn úr skattskýrslunum og færður yfir í Hagkaup og Bónus og þangað sem menn vilja fá hann og talsmenn þeirra hér í þinginu. Það eru náttúrlega aðrar efnahagsstærðir sem skipta máli líka (Forseti hringir.) og það er tilkostnaðurinn í heilbrigðiskerfinu. Er það ekki hlutur sem við þurfum að gaumgæfa líka þegar við horfum til þessa frumvarps og aukinnar áfengisneyslu sem það mun leiða af sér, tilkostnaðurinn í heilbrigðiskerfinu?