145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:44]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég sat í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þegar umrætt frumvarp var þar til afgreiðslu í fyrra og mjög áhugavert að sjá hvernig umsagnaraðilar skiptust svolítið í tvo hópa. Mikill meiri hluti af umsögnum var frá þeim sem tengjast lýðheilsu og æskulýðsmálum sem vara okkur verulega við því að þetta frumvarp nái fram að ganga. Annar þráður sem var töluvert sýnilegur var frá hagsmunaaðilum sem reka verslanir, verslun og þjónustu o.fl. sem vilja að frumvarpið nái fram að ganga. Maður er verulega hugsi yfir þessu.

Varðandi efnahagslega tölur og hagkvæmni og þá hafa margir flutningsmenn talað um að við spörum peninga fyrir ríkið með því að leggja verslunina niður en ég tel að sá sparnaður verði ekki lengi að fara í kostnað vegna aukinnar tíðni lýðheilsutengdra sjúkdóma(Forseti hringir.) og þess háttar málum sem bregðast þurfi við og þetta komi á annan hátt niður á kerfinu okkar.