145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta snýst ekki um vantraust á fólki. Þetta snýst um það að við höfum fyrir framan okkur rannsóknir frá afskaplega mörgum aðilum sem segja að þetta fyrirkomulag sé það besta þegar kemur að forvörnum. Það er erfitt fyrir ungt fólk að standa gegn jafnöldrum sínum og segja nei, hleypa því ekki í gegn. Það getur reynst mörgum mjög erfitt og ég hef af því áhyggjur. Það er vissulega ekki bara ungt fólk í verslunum en það er töluvert um það og við þekkjum það. Eins og ég segi eru á litlu stöðunum úti á landi kannski bara einn og tveir í búðinni í einu, það er ekki endilega allt fullt þannig að hver geti haft eftirlit með öðrum o.s.frv. Þetta er líka svoleiðis en fyrst og fremst finnst mér þetta snúa að því — og við röktum það mjög vel síðast þegar við töluðum um þetta mál — að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og svo margir aðrir sem vitnað hefur verið í segja að það sé samhengi og þar sem þessu sé komið fyrir með þessum hætti stuðli það að minnkandi neyslu ungmenna. Það er fyrst og fremst það sem ég hef trú á. Þess vegna hef ég sagt að þrátt fyrir að Áfengisverslun ríkisins hafi fjölgað verslunum skiptir mestu máli stabilítetið í fólkinu, gott eftirlit og þátttaka og samstarf við forvarnafólk og lögreglu. Allt þetta skiptir máli og það verður ekki fært inn í matvöruverslanirnar, það er alveg ljóst. Það eru rökin, ekki að maður vantreysti öðrum. Það eru alveg haldbær rök fyrir því að matvöruverslunin getur kannski bara ekki gert nákvæmlega það sama og ríkisfyrirtækið okkar er að gera. Ég held að það sé fyrst og fremst það.