145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við getum rætt um sparnað á ýmsum stöðum og ýmsum sviðum, m.a. hvernig forgangsraðað er í fjárlagafrumvarpinu, hvernig þessi ríkisstjórn innheimtir tekjur o.s.frv.

Þjóðhagslegur sparnaður og að losa 6 milljarða? Við losum enga 6 milljarða sisona og spýtum þeim út í kerfið. Þjóðhagslegur sparnaður felst nefnilega ekki bara í þeim fjármunum sem þarna eru. Við verðum að horfast í augu við það að þær rannsóknir og það sem við höfum fyrir framan okkur segir okkur að þetta brýst út annars staðar. Við megum ekki fara óvarlega með tölur þrátt fyrir að við getum horft í bókhald fyrirtækisins og sagt að þessar tölur séu til. Ég vil ekki horfa svona einfaldlega á það að þetta sé bara eitthvað í hendi sem við getum sett út í kerfið.

Mér finnst mikilvægt að einkaaðili — eða hvort eigum við að horfa á, hvort vegur þyngra, stórverslunarkeðjurnar eða til dæmis mögulegar afleiðingar í heilbrigðiskerfinu? Okkur greinir á um neytendasjónarmiðin. Framsögumaðurinn og væntanlega sá sem hér er í andsvari við mig telja að þetta sé neytendum til góða. Ég tel svo ekki vera, eins og ég rakti áðan. Ég tel líka barnaskap að halda að nái þetta í gegn verði einhvern tímann snúið aftur. Þetta er eins og þegar Síminn var einkavæddur forðum — hvað sitjum við uppi með? Það var spurt um einhver dæmi um eitthvað einkavætt sem hefði ekki gengið vel. Síminn er gott dæmi. Landsbyggðirnar blæða heldur betur fyrir þá einkavæðingu.

Ég er sammála þingmanninum í að við höfum knappan tíma. Við gætum rætt þetta út frá ótrúlega mörgum breytum, eigum að gera það og gerum það væntanlega áfram í nefndinni og svo hér ef málið kemur til 2. umr.