145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:16]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Á Íslandi eru lög og reglur. Við sem erum efins um það frumvarp sem hér er til umræðu erum sögð haldin forræðishyggju, að við viljum hafa vit fyrir fólki. En við erum með lög um svo margt. Við erum með lög um að fólk megi keyra bíla, en við erum líka með lög um að fólk eigi að nota bílbelti, að það eigi ekki að vera undir áhrifum áfengis þegar það keyrir, að keyra eigi á löglegum hraða og margt, margt fleira. Við erum með ákveðin lög í kringum það og þar erum við líka að hugsa um líf og heilsu fólks.

Sagt er að við séum með forræðishyggju. Áfengi er ekki bannað í dag. Við erum bara með þannig fyrirkomulag að við getum aðeins stýrt neyslunni og viljum þá sérstaklega fylgjast með áfengisnotkun ungmenna. Rökin með frumvarpinu eru m.a. þau að nota ekki fjármagn frá ríkinu til þess að halda úti ÁTVR, sem á reyndar stærsta þátt í því hversu vel við stöndum að vígi hér á Íslandi í sambandi við áfengisnotkun ungmenna. Til dæmis sýna nýjustu niðurstöður samevrópskrar rannsóknar, sem gerð er á fjögurra ára fresti sem skoðar áfengis- og vímuefnanotkun 15–16 ára ungmenna, að íslensk ungmenni á aldrinum 15–16 ára neyta minnst áfengis ef miðað er við önnur ungmenni í Evrópu, bæði þegar horft er til heildarneyslu, neyslu á einu ári og neyslu síðustu 30 daga. Við stöndum því mjög vel þar.

Sumir eru á móti því að nota fjármagn frá ríkissjóði til þess að halda úti ÁTVR sem hjálpar okkur í þessu aðhaldi. Á móti tel ég að þegar búið verður að koma frumvarpinu í gegn og þegar áhrifa þess til verri vegar fer að gæta hér, eins og rannsóknir benda til að gerist, verði fjármagn úr ríkissjóði notað til forvarna og baráttu gegn áfengisnotkun ungmenna Telur hv. þingmaður ef til vill að þarna sé verið að vonast til að hægt sé að borga sig frá vandanum?