145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:43]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Það er margt sem við þurfum að breyta í fyrirkomulaginu, t.d. forgangsröðinni í því hvað ríkið setur til þess að vinna gegn skaðlegum áhrifum áfengisneyslu. Forvarnir hafa títt verið ræddar í þessum ræðustól sem mótvægisaðgerðir við því sem gæti skeð samkvæmt rannsóknum ef þetta frumvarp gengur í gegn, þ.e. að aðgengi muni auka áfengisneyslu ungmenna. Ef ég tala við ungt fólk í kringum mig og spyr: Hvað fékk þig til að hætta að drekka eða af hverju drekkurðu ekki? eru ástæðurnar oftast reynslan eftir að fólk hafði prófað það. Unga fólkið varð veikt af því, það var engin stjórn á drykkjunni eða gjörðum, því fannst þetta vont á bragðið eða þá að það drakk ekki vegna þess að foreldrar voru með áfengisvandamál eða því finnst áfengi dýrt og vill gera eitthvað annað við peninginn sinn sem því finnst gáfulegra. Þetta eru allt rök en þá er spurningin hvort forvarnirnar eigi að vera eini punkturinn sem við einblínum á (Forseti hringir.) með samþykkt þessa frumvarps eða hvort einnig séu aðrar leiðir.