145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mér finnst reyndar nokkrar þversagnir í því sem hv. þingmaður ræddi áðan og mig langar bara, svo ég skilji, að heyra aðeins ofan í hana með þær. Í fyrsta lagi talaði hv. þingmaður um að við réðum ekki við ástandið eins og það er í dag. Ég er algjörlega sammála því og þess vegna spyr ég: Er það leið til úrbóta að leggja til breytingu á dreifingu áfengis sem hefur sannanlega í för með sér væntanlega allt að 40% aukningu drukkinna lítra hreins áfengis á mann? Er það vænlegt til árangurs þegar við ráðum þegar ekki við ástandið eins og það er núna? Er þá vænlegt til árangurs að losa um sölu áfengis þannig að við fáum yfir okkur þessa 4 lítra aukningu á mann á ári?