145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:06]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Sú sem hér stendur átti þar til fyrir nokkrum dögum sæti í velferðarnefnd Norðurlandaráðs. Þar unnum við mikið með heilbrigðisráðherrum Norðurlandanna og við unnum mikið með alls konar plögg sem Norðurlöndin höfðu öll undirritað í sameiningu og skuldbundu sig til að vinna eftir. Manni fannst alveg sjálfsagt að þjóðirnar ynnu saman að rosalega mörgu í þessum gögnum.

Mér finnst umræðan hérna gera þau plögg sem við höfum undirskrifað svolítið ómerkileg. Umræðurnar erlendis eru undrun, fólk í öðrum löndum minnir mig á baráttu þjóða sem eiga í vanda og eru að reyna að snúa þessari þróun við hjá sér. Þá spyr ég hvert við erum að fara með stefnu Íslands, þessa áfengis- og vímuefnavandamálastefnu sem við höfum líka undirritað hér á landi. Hefur þingmaðurinn eitthvað velt því fyrir sér og lítur hann svo á að við séum í rauninni að ógilda þá samninga sem við höfum undirritað með því að samþykkja þetta frumvarp?